Atvinnuviðtal er ein algengasta matsaðferðin í starfsmannaráðningum. Fæstir, ef þá nokkrir, ráða starfsmann eingöngu út frá ferilskrá viðkomandi. Í viðtölum vilja atvinnuveitendur glöggva sig betur á upplýsingunum sem fram koma í ferilskrá, gera sér betur grein fyrir reynslu umsækjandans og fá tilfinningu fyrir honum sem manneskju, samstarfsfélaga eða undirmanni, og hvernig viðkomandi eigi eftir að falla inn í það starfsumhverfi sem fyrir er. Þá skipta persónulegir hæfileikar, framkoma og dagfarsprýði einstaklinga oft lykilatriði í störfum, sem og hæfni þeirra til að bregðast við aðstæðum á sem bestan hátt. Þetta eru allt atriði sem byggjast að miklu leyti á tilfinningu en einmitt þess vegna geta atvinnuviðtöl orðið ómarkviss og í raun hálfgerð tímaeyðsla ef viðtölin eru ekki undirbúin og framkvæmd á besta mögulega hátt.
Stöðluð viðtöl hafa rutt sér til rúms í mannauðsstjórnun á undanförnum árum og gefa góða raun. Mannauðs- og ráðningastjórar hafa tileinkað sér þessa aðferð í miklum mæli vegna þess að á sama tíma og viðtalið gefur innsýn í persónuleika umsækjandans er hægt að meta ákveðin atriði í hans fari og jafnframt gera sanngjarnan og marktækan samanburð á umsækjendum að loknum viðtölunum.
Staðlað viðtal felur í sér að ákveðnum ramma er ávallt fylgt svo inntak hvers viðtals verður það sama, þrátt fyrir að hægt sé að eiga þægilegt spjall um ákveðin atriði og leyfa umsækjandanum að koma því að sem hann hefur hug á. Hins vegar kemur staðlað form á viðtali í veg fyrir að umsækjandinn geti stýrt viðtalinu sér í hag.
Óstaðlað viðtal felur í sér að engin tvö viðtöl verða eins og því verður útkoman úr þeim aldrei sambærileg; þannig hefur matsaðferðin misst marks því ef viðtölin eru ólík og draga fram mismunandi upplýsingar og áherslur geta margir umsækjendur þótt álitlegir en af mismunandi ástæðum. Atvinnuveitandinn er því engu nær um hver hentar best í starfið að loknum tímafrekum viðtölunum og hættan á að rangur einstaklingur sé ráðinn í starfið eykst.
Tilgangur atvinnuviðtals er hins vegar fyrst og fremst sá að afla upplýsinga um umsækjandann svo hægt sé að bera hann saman við aðra umsækjendur. Það þarf því að afla sömu vitneskjunnar um hvern og einn, svo hægt sé að bera þá saman.
Staðlað viðtal þarfnast vissulega undirbúnings en auðveldar að sama skapi viðtalsferlið, úrvinnslu og ákvarðanir. Rannsóknir sýna enn fremur að stöðluð viðtöl minnka áhrif staðalmynda kynjanna á mat á umsækjendum.
(Bókin Starfsmannaval e. Dr. Ástu Bjarnadóttur höfð til hliðsjónar)